CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Fólki með Crohns-sjúkdóm er ráðlagt að neyta sama fjölbreytta mataræðis og frísku fólki er ráðlagt. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að sumir sem eru með Crohns-sjúkdóm neyti minna af vítamínum og steinefnum. Það getur leitt til skorts á t.d. B12- og D-vítamíni. Auk þess er frásog ákveðinna vítamína og steinefna minna hjá þeim sem eru með sjúkdóminn í smágirninu, því er nauðsynlegt að fylgjast með magni þessara efna í blóðinu og ef til vill að veita uppbótarmeðferð með þessum efnum til inntöku eða með sprautum. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt fram á að fólk með Crohns-sjúkdóm er í aukinni áhættu á að fá beinþynningu. Orsökin fyrir þessu er minnkað frásog D‑vítamíns og kalks úr þörmunum, viðvarandi bólgusvörun í líkamanum og meðferð á köflum með barksterum.