CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Það getur verið erfitt að greina Crohns-sjúkdóm og oft líður langur tími frá því einkennin koma fyrst fram þar til sjúkdómsgreiningin er staðfest. Í danskri rannsókn kom fram að það líða að meðaltali 8,3 mánuðir frá því einkenni koma fram þangað til sjúkdómsgreiningin er staðfest.

Crohns-sjúkdómur er heilkennis-sjúkdómgreining og engin stök rannsókn getur staðfest sjúkdóminn. Þannig að sjúkdómsgreiningin er staðfest ef tvennt af eftirfarandi er til staðar.

Kviðverkir og/eða niðurgangur lengur en í 3 mánuði.

Dæmigerðar niðurstöður speglunar- og /röntgenrannsókna.

Dæmigerðar niðurstöður smásjárskoðunar vefjasýna.

Fistlar eða graftarkýli í tengslum við sjúka hluta þarmanna.

 

Holsjárskoðun (speglun)
Holsjárskoðun á ristli og neðri hluta smágirnis er mikilvæg rannsókn ef grunur leikur á Crohns-sjúkdómi.

Rannsóknin fer fram með sveigjanlegri slöngu með innbyggðri myndavél á framendanum. Í holsjánni er bæði ljós og skolunarbúnaður, til þess að endinn haldist hreinn. Hægt er að blása lofti og taka með lítilli töng vefjasýni til nánari rannsóknar. Daginn fyrir rannsóknina er tekið hægðalyf sem tryggir tæmingu þarmanna. Við rannsóknina er gefið róandi og verkjastillandi lyf. Í spegluninni sést Crohns-sjúkdómur með ósamfellda útbreiðslu, það skiptist á bólgin slímhúð og heilbrigð slímhúð á milli (ósamfelld útbreiðsla sjúkdómsins (skip lesions)). Bólgan getur verið til staðar hvar sem er í meltingarveginum. Það fyrsta sem finnst þegar Crohns-sjúkdómur er til staðar er nokkurra millimetra stór sár. Slímhúðin á milli þeirra getur verið rauð og bólgin. Við versnandi sjúkdóm verða sárin stærri og liggja langsum og þversum og mynda götusteinamynstur, þannig að slímhúðin líkist steinilagðri götu. Auk þess má sjá fistlamyndanir og þrengsli í þörmunum vegna mikillar bólgu eða örvefsmyndunar (stenosis). Ef grunur er um Crohns-sjúkdóm og jafnframt einkenni frá efri hluta maga og þarma getur verið mikilvægt að skoða með holsjá vélinda, maga og smágirni  til að rannsaka hvort sjúkdómurinn sé einnig til staðar þar.

 

Smásjárskoðun og vefjasýni
Vefjasýni sem tekin eru í speglun eru send til frekari rannsóknar. Sýnin eru sett í sérstakan vökva og send til skoðunar á rannsóknarstofu í meinafræði. Eftir frystingu, skurð í þunnar sneiðar og litun eru vefjasýnin skoðuð í smásjá. Dæmigert við Crohns-sjúkdóm er að sjá bólgusvörun í öllum þarmaveggnum. Oftast sést aðeins bólga í þeim hluta þarmaslímhúðarinnar sem svarar til þeirra bólgusvörunar sem sást í holsjárskoðuninni. Það sést fjöldi T-eitilfrumna og hjá færri en helmingi sést dæmigerð bólgusvörun með myndun risafrumna (kornfrumur). Ef kornfrumur eru til staðar er mjög líklegt að sjúkdómsgreiningin sé Crohns-sjúkdómur.

 

Rannsókn á smágirni
Við Crohns-sjúkdóm er oft nauðsynlegt að rannsaka smágirnið. Venjulega er gerð röntgenrannsókn á smágirninu eftir inntöku skuggaefnis (skuggaefnisrannsókn á görnum). Fyrir rannsóknina er drukkið skuggaefni sem inniheldur baríum og berst í gegnum smágirnið. Baríum tekur til sín röntgengeislana sem gerir það mögulegt að sjá innra yfirborð þarmanna. Rannsóknina má einnig gera með því að setja slöngu niður í smágirnið, sem skuggaefninu er síðan dælt í. Vegna stærri geislaskammta og óþæginda við þræðingu slöngunnar niður í smágirnið hefur þessi aðferð almennt ekki náð útbreiðslu. Á hinn bóginn er skuggaefnisrannsókn á þörmum algeng við sjúkdómsgreiningu Crohns-sjúkdóms. Dæmigert er að sjá óreglulega slímhúð með sárum, götusteinamynstur, þrengsli í þörmum, ósamfellda útbreiðslu sjúkdómsins og fistla.

Á síðustu árum hafa verið þróaðar nýjar rannsóknaraðferðir til að greina sjúkdóma í mjógirni.

Holsjárhylkisrannsókn á þörmum er gerð með 11×26 mm stóru hylki sem gleypt er með glasi af vatni. Hylkið inniheldur myndavél sem tekur tvær myndir á sekúndu í 8 klst. á meðan það berst með þarmahreyfingunum í gegnum þarmana. Hylkið skilar sér með hægðum, oftast á 24-48 klst. Hylkið sendir myndirnar þráðlaust í móttökubúnað sem viðkomandi ber í belti framan á kviðnum. Eftir rannsóknina er hægt að flytja upplýsingarnar í tölvu, þar sem læknirinn skoðar myndirnar. Hættan á að myndhylkið festist í smágirninu er alvarlegasti fylgikvilli rannsóknarinnar. Oft má meðhöndla það með lyfjum en stundum þarf að grípa til skurðaðgerðar. Hylkið festist hjá 1,4% einstaklinga sem grunur leikur á að hafi Crohns-sjúkdóm og 4-13% þeirra sem eru með þekktan Crohns-sjúkdóm. Dæmigerðar niðurstöður eru sár, götusteinamynstur og þrenging í mjógirni.

Við segulómun myndast sterkt segulsvið sem fær sameindir líkamans til að hegða sér á sama hátt.

Með útvarpsbylgjum og tölvutækni fást myndir af smágirninu. Segulómun gerir kleift að ná þrívíddarmyndum án þess að nota röntgengeisla. Gagnstætt skuggaefnisrannsókn á smágirni er hægt  að sjá öll merki Crohns-sjúkdóms. Þannig er hægt að sjá sár í slímhúð, þykknun þarmaveggs og þrengsli í þörmum og fylgikvilla utan þarmanna (fistla eða graftarkýli). Til að myndir náist af þörmunum þarf sjúklingurinn að drekka skuggaefni fyrir rannsóknina. Einnig er honum gefið skuggaefni í bláæð. Skuggaefnið í blóðinu fær þarmana til að ljóma á myndunum. Rannsóknin tekur u.þ.b. 25-30 mínútur.

Sneiðmyndatækið hefur sömu eiginleika og segulómtækið en röntgengeislar eru notaðir til að ná myndum af mjógirninu. Sneiðmyndatæknin aðskilur sig frá venjulegri röntgenrannsókn að því leyti að notuð er þróaðri tækni til að nema geislana og tölva setur upplýsingarnar saman í þrívíddarmynd.

Við rannsóknina er bæði gefið skuggaefni í þarmana og blóðrásina. Sneiðmyndataka tekur einungis nokkrar mínútur og dæmigert er að finna sár, þykknun þarma og skuggaefnisupphleðslu og fylgikvilla utan þarmanna (fistil eða graftarkýli).

 

Aðrar rannsóknir 
Engar blóðrannsóknir eru sértækar fyrir Crohns-sjúkdóm, en mismunandi þættir í blóðinu geta rennt stoðum undir grun um Crohns-sjúkdóm. Við verulega bólgusvörun í þörmunum hækka sermisgildi bráðafasa próteinsins c-reaktíft prótein (CRP) og orosómukóíðs. Jafnframt má sjá fjölgun hvítra blóðkorna og blóðflagna. Blóðmissir vegna sára í þarmaslímhúðinni getur haft í för með sér blóðleysi og járnskort í blóðinu. Crohns-sjúkdómur í neðsta hluta smágirnis hefur áhrif á frásog B12-vítamíns sem getur verið skortur á í blóðinu og leitt til blóðleysis og einkenna frá taugkerfinu. Við niðurgang, þegar grunur er um Crohns-sjúkdóm, er mikilvægt að útiloka að þarmasýking sé til staðar. Sama á við um versnun þekkts Crohns-sjúkdóms. Það er oft þörf á að senda hægðaprufur til bakteríugreiningar.

Sums staðar er notuð ný aðferð við að greina bólgu í þarmaslímhúð. Kalprótektín í ónæmisfrumum líkamans, kornafrumum. Þær eru í auknu magni í þarmaslímhúðinni við Crohns-sjúkdóm. Við bólgusvörun útskilst kalprótektín í hægðunum og það er hægt að mæla í lítilli hægðaprufu.

Magn kalkprótektíns eykst í hægðum við Crohns-sjúkdóm, en rannsóknin er ekki sértæk fyrir sjúkdóminn. Þannig geta gildin einnig hækkað við þarmasýkingar, þarmabólgur af öðrum toga, krabbamein, sepa í þörmum og við inntöku bólgueyðandi gigtarlyfja (NSAID).