CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Crohn's sjúkdómur og Colitis Ulcerosa eru sjálfsónæmissjúkdómar í meltingarvegi sem einkennast af langvarandi bólgum. Algeng einkenni sjúkdómanna eru meðal annars; kviðverkir, niðurgangur, blóðleysi og þreyta. Einkenni og alvarleiki sjúkdómanna eru mjög einstaklingsbundin auk þess sem sjúkdómarnir sveiflast frá virkum til óvirkra tímabila. Meðferð er því sérsniðin að hverjum og einum og eftir ástandi hverju sinni. Þetta á einnig við um mataræðið.

Langvarandi bólgur og önnur einkenni geta haft áhrif á upptöku og nýtingu orku- og næringarefna. Því er mikilvægt að fæðan sem við veljum uppfylli það sem líkaminn þarfnast hverju sinni. Almennt er mælt með fjölbreyttri og næringarríkri fæðu þegar sjúkdómurinn liggur í dvala. Þegar einkenni versna eða sjúkdómurinn er virkur getur verið hjálplegt að breyta mataræðinu. Það getur þýtt að takmarka ákveðna fæðutegund eða fæðutegundir í einhvern tíma, minnka trefjaneyslu og grófa fæðu og velja fremur létt og auðmeltanleg matvæli. Einnig er mikilvægt að drekka nægan vökva, sérstaklega ef mikill niðurgangur er til staðar. Gott er að velja vökva sem inniheldur sölt, t.d. kjötsoð (bullion) eða Gatorate. Þegar erfitt reynist að uppfylla orku- og næringarefnaþörf getur einnig verið hjálplegt að drekka sérsniðna næringardrykki t.d. Nutridrink. Hafa skal í huga að einkenni sjúkdómanna og einhæft mataræði getur aukið líkur á skorti nauðsynlegra vítamína og steinefna og þess vegna gæti verið nauðsynlegt að taka aukalega vítamín og steinefni.

Nokkuð er um að einstaklingar með bólgusjúkdóma prófi sig áfram með ýmis sérhæfð mataræði sem talin eru hafa jákvæð áhrif á daglega líðan. Þetta eru mataræði eins og t.d. Paelo, SCD, grænmetisfæði og Low FODMAP. Hafa skal í huga að þessi mataræði snúast gjarnan um að útiloka mikið úr almennri fæðu og því auknar líkur á orku- og næringarefnaskorti ef ekki farið rétt að. Ráðlagt er að tala við sérhæfðan næringarfræðing eða lækni ef gera á miklar breytingar á fæðuvali og einnig er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga;

Ertu nýgreind/-ur eða er sjúkdómurinn í virku ástandi?
Þeir sem eru búnir að vera lengi með einkenni eru oft meðvitað/ómeðvitað búnir að taka allskonar úr mataræðinu sínu sem þeim líður ekki vel af og jafnvel farnir að borða sjaldnar eða minna en venjulega til að komast hjá óþægindum eða auknum klósettferðum. Ef mataræðið er einhæft í lengri tíma eru auknar líkur á að líkaminn fái ekki þá orku eða næringarefni sem hann þarfnast. Þreyta og orkuleysi getur verið hluti af sjúkdómseinkennum en mögulega einnig út af slæmu næringarástandi. Á þessu tímabili er mikilvægast að borða reglulega yfir daginn og frekar minni í einu ef það fer betur í magann. Velja fremur léttari fæðu og velja næringarríkt eins og hægt er. Þegar bólgur eru til staðar getur verið gott að borða tímabundið minna af trefjaríkum matvælum t.d. gróft brauð með korni, hrátt grænmeti og ávextir. Gott er að drekka reglulega yfir daginn en ef matarlystin er lítil er mikilvægt að vatn komi ekki í staðinn fyrir mat. Á þessu tímabili getur verið mikilvægt að minna sig á að oftar en ekki er það sjúkdómurinn/ bólgurnar sem er að valda einkennunum þegar við borðum en ekki endilega maturinn sjálfur.

Ertu í sjúkdómshléi?
Þegar bólgur eru í dvala og einkenni í lágmarki er oft talað um sjúkdómshlé. Nú getur verið góður tími til að bæta mataræðið og finna út hvort einhver matvæli fari betur í magann en önnur. Fjölbreytt mataræði er mikilvægt fyrir þarmaflóruna og veitir líkamanum þau næringarefni sem hann þarf til uppbyggingar og viðhalds eftir veikindi. Mörgum hentar að borða minna í einu en oftar yfir daginn. Algengt er að miða við þrjár orkumeiri máltíðir (morgun-, hádegis-, kvöldmatur) og tvö millimál. Mikilvægt er að borða próteinrík matvæli yfir daginn og sér í lagi eftir langvarandi veikindi.

Bæklingurinn IBD og næring

  • Grænmetisfæði

    Undirstaða grænmetisfæðis kemur eins og nafnið gefur til kynna úr jurtaríkinu. Samsetning mataræðisins getur verið mjög fjölbreytt. Sumir útiloka eingöngu rautt kjöt og aðrir útiloka einnig fuglakjöt og fisk. Þeir sem neyta engra dýraafurða (vegan) taka einnig út egg, mjólk og mjólkurafurðir. Flestir grænkerar leggja áherslu á að neyta fjölbreyttrar fæðu úr öllum nauðsynlegum fæðuflokkum svo sem; kornmeti, baunir, ávexti og grænmeti sem að öllu jöfnu eru rík af flóknum kolvetnum (sterkju), trefjaefnum, vítamínum, steinefnum og "góðri" fitu. Jurtafæði, svo framarlega sem það er rétt samansett, getur verið góður næringarkostur og haft jákvæð áhrif á heilsufar. Mikilvægt er að huga sérstaklegnæringarefnum og helst eru það járn, sink, kalk, B-12 og D-vítamín sem þarf að fylgjast með að ekki vanti.

    Fróðleik og girnilegar uppskriftir má m.a. finna á Veganistur.is og Graenkerar.is

    Sjá einnig upplýsingar um glútenóþol og uppskriftir á Gluten.is

    Brokkolíbaka

    Brokkolíbaka

    Gratinerað eggaldin

    Gratinerað eggaldin

    Einföld grænmetissúpa

    Einföld grænmetissúpa

  • Low FODMAP diet

    FODMAP er skammstöfun fyrir Fermentable Oligosaccharides, Disaccharides, Monosaccharides and Polyols. Þetta eru kolvetni sem getur verið erfitt fyrir einstaklinga með meltingarsjúkdóma að brjóta niður og frásoga. Ómelt kolvetnin fara niður í ristilinn og geta valdið t.d. uppþembu, vindgangi og niðurgangi. Með því að útiloka þessi ákveðnu kolvetni úr fæðunni gætu einkenninn mögulega minnkað. Sumir einstaklingar með IBS (Irritable Bowel Syndrome) segja Low FODMAP mataræði sérstaklega hjálplegt. Vísbendingar eru um að sumir einstaklingar með óvirkan IBD, gætu einnig haft IBS eða IBS-lík einkenni og þess vegna gæti FODMAP mataræðið einnig hentað þeim.

    Erfitt getur verið að fylgja low FODMAP mataræðinu þar sem það er fremur flókið og útilokar margar fæðutegundir í um 4-6 vikur. Fæðutegundirnar eru flokkaðar eftir því hversu mikið af FODMAP sykrum þau innihalda og hversu stóra skammt er ráðlegt að neyta á ákveðnum matvælum. Fæða sem á að takmarka er meðal annars:
    • Fruktósi (Fructose): finnst í ávöxtum
    • Fructans (Fructans): Er í lauk, hvítlauk og hveiti
    • Laktósi (Laktose): Td. í mjólkurvörum
    • Galacto-Oligosaccarides: Í baunum og ertum
    • Polyol: Í gervisætu og sumum ávöxtum

    Mikilvægt er að vera í samráði við lækni og eða sérhæfðan næringarfræðing ef prófa á Low FODMAP mataræðið. Þeir sem vilja kynna sér mataræðið betur geta skoðað fræðsluefni eða kynnt sér appið á slóðinni:https://www.monashfodmap.com/about-fodmap-and-ibs/

    Brakandi hnetusmjörsbitar með súkkulaði

    Brakandi hnetusmjörsbitar með súkkulaði

    Kjúklingaofnréttur með pasta og brokkólí

    Kjúklingaofnréttur með pasta og brokkólí

    Næringarrík hádegisskál með sætri kartöflu, kínóa og steiktum eggjum fyrir tvo

    Næringarrík hádegisskál með sætri kartöflu, kínóa og steiktum eggjum fyrir tvo

  • Paelo

    Paelo mataræði eða steinaldarmataræði er byggt á mataræði foreldra okkar. Kenningin er sú að genamengi mannsins hafi breyst mun minna en þær miklu breytingar sem hafa orðið á mataræðinu og líkami okkar sé ekki gerður til að vinna úr þessari nýju fæðu. Talsmenn mataræðisins trúa að krónískir sjúkdómar (t.d. Crohn´s sjúkdómur) eigi rætur sínar að rekja til breytinga á matvælum sem fylgdu landbúnaðarbyltingunni. Með henni varð mikil aukning á neyslu kornvara, unninna sykurvara og mjólkurvara. Paelo samanstendur af mögru kjöti, fiski og sjávarfangi, eggjum, grænmeti, ávöxtum, hnetum og fræjum. Forðast skal mjólkurvörur, unnar kornvörur og unnin matvæli.  Mataræðið takmarkar stóra fæðuhópa sem til lengri tíma getur leitt til næringarefnaskorts. Ráðlegt er að tala við næringarfræðing eða lækni til að kanna hvort mataræðið henti þér og þínum líkama.

    Frekara lesefni um mataræðið sem og uppskriftir má t.d. finna á https://thepaleodiet.com/ og hugmyndir að Paelo nesti á: https://irenamacri.com/30-inspiring-paleo-lunchboxes/

    Eggjahræra með sveppum og spínati

    Eggjahræra með sveppum og spínati

    Grillaðar rækjur og ferskjur

    Grillaðar rækjur og ferskjur

    Kremaður kjúklingur á pönnu

    Kremaður kjúklingur á pönnu

  • SCD

    Specific Carbohydrate Diet (SCD mataræði) kemur gjarnan upp þegar leitað er að mataræði fyrir einstaklinga með bólgusjúkdóma í meltingarvegi. Mataræðið var upprunalega ætlað einstaklingum með Selíak sjúkdóm (Celiac disease) sem einkennist af ofnæmi/óþoli fyrir glúteni. Síðar var talið að mataræðið gæti haft jákvæð áhrif á einstaklinga með annarskonar þarmasjúkdóma s.s. IBD.

    SCD er strangt lágkolvetna mataræði sem takmarkar súkrósa (sykur), laktósa og allar korntegundir (hveiti, bygg, hafra og hrís) auk sterkjuríkra fæðutegunda t.d. kartöflur og næpur. Kenningin er að erfiðara sé að melta þessi matvæli og kolvetnin sem þau innihalda endi oft ómelt í ristlinum, auki óvinveittar bakteríur í þörmunum og valdi þannig óþægindum svo sem uppþembu og/eða niðurgangi.

    Þetta mataræði hentar ekki öllum og sér í lagi þeim sem eru með þrengingar í meltingarveginum þar sem trefjar (t.d. hrátt grænmeti og ávextir) eru mikilvægur hluti af mataræðinu. Hlutfall fituríkra matvæla eykst á SCD mataræðinu sem ekki allir þola. Erfitt getur verið að fylgja mataræðinu þar sem margar fæðutegundir eru teknar út og einstaklingnum jafnvel ráðlagt að fylgja því í að minnsta kosti í ár. Mjög mikilvægt er að fá aðstoð hjá næringarfræðingi áður en þetta mataræði er reynt því erfitt getur verið að fylgja því án þess að verða vannærður.

    Hugmyndir að SCD uppskriftum; https://www.everylastbite.com/

    Lax með muldum pistasíuhnetum

    Lax með muldum pistasíuhnetum

    Blondínur úr möndlusmjöri

    Blondínur úr möndlusmjöri

    Ofnbakaður kjúklingur með ferskjum

    Ofnbakaður kjúklingur með ferskjum