Mataræði
Crohn's sjúkdómur og Colitis Ulcerosa eru sjálfsónæmissjúkdómar í meltingarvegi sem einkennast af langvarandi bólgum. Algeng einkenni sjúkdómanna eru meðal annars; kviðverkir, niðurgangur, blóðleysi og þreyta. Einkenni og alvarleiki sjúkdómanna eru mjög einstaklingsbundin auk þess sem sjúkdómarnir sveiflast frá virkum til óvirkra tímabila. Meðferð er því sérsniðin að hverjum og einum og eftir ástandi hverju sinni. Þetta á einnig við um mataræðið.
Langvarandi bólgur og önnur einkenni geta haft áhrif á upptöku og nýtingu orku- og næringarefna. Því er mikilvægt að fæðan sem við veljum uppfylli það sem líkaminn þarfnast hverju sinni. Almennt er mælt með fjölbreyttri og næringarríkri fæðu þegar sjúkdómurinn liggur í dvala. Þegar einkenni versna eða sjúkdómurinn er virkur getur verið hjálplegt að breyta mataræðinu. Það getur þýtt að takmarka ákveðna fæðutegund eða fæðutegundir í einhvern tíma, minnka trefjaneyslu og grófa fæðu og velja fremur létt og auðmeltanleg matvæli. Einnig er mikilvægt að drekka nægan vökva, sérstaklega ef mikill niðurgangur er til staðar. Gott er að velja vökva sem inniheldur sölt, t.d. kjötsoð (bullion) eða Gatorate. Þegar erfitt reynist að uppfylla orku- og næringarefnaþörf getur einnig verið hjálplegt að drekka sérsniðna næringardrykki t.d. Nutridrink. Hafa skal í huga að einkenni sjúkdómanna og einhæft mataræði getur aukið líkur á skorti nauðsynlegra vítamína og steinefna og þess vegna gæti verið nauðsynlegt að taka aukalega vítamín og steinefni.
Nokkuð er um að einstaklingar með bólgusjúkdóma prófi sig áfram með ýmis sérhæfð mataræði sem talin eru hafa jákvæð áhrif á daglega líðan. Þetta eru mataræði eins og t.d. Paleo, SCD, grænmetisfæði og Low FODMAP mataræðið. Hafa skal í huga að þessi mataræði snúast gjarnan um að taka mikið út úr fæðunni og því auknar líkur á orku- og næringarefnaskorti ef ekki farið rétt að. Ráðlagt er að tala við sérhæfðan næringarfræðing eða lækninn þinn ef gera á miklar breytingar á fæðuvali.