Mataræði

Crohn's sjúkdómur og Colitis Ulcerosa eru sjálfsónæmissjúkdómar í meltingarvegi sem einkennast af langvarandi bólgum. Algeng einkenni sjúkdómanna eru meðal annars; kviðverkir, niðurgangur, blóðleysi og þreyta. Einkenni og alvarleiki sjúkdómanna eru mjög einstaklingsbundin auk þess sem sjúkdómarnir sveiflast frá virkum til óvirkra tímabila. Meðferð er því sérsniðin að hverjum og einum og eftir ástandi hverju sinni. Þetta á einnig við um mataræðið.

Langvarandi bólgur og önnur einkenni geta haft áhrif á upptöku og nýtingu orku- og næringarefna. Því er mikilvægt að fæðan sem við veljum uppfylli það sem líkaminn þarfnast hverju sinni. Almennt er mælt með fjölbreyttri og næringarríkri fæðu þegar sjúkdómurinn liggur í dvala. Þegar einkenni versna eða sjúkdómurinn er virkur getur verið hjálplegt að breyta mataræðinu. Það getur þýtt að takmarka ákveðna fæðutegund eða fæðutegundir í einhvern tíma, minnka trefjaneyslu og grófa fæðu og velja fremur létt og auðmeltanleg matvæli. Einnig er mikilvægt að drekka nægan vökva, sérstaklega ef mikill niðurgangur er til staðar. Gott er að velja vökva sem inniheldur sölt, t.d. kjötsoð (bullion) eða Gatorate. Þegar erfitt reynist að uppfylla orku- og næringarefnaþörf getur einnig verið hjálplegt að drekka sérsniðna næringardrykki t.d. Nutridrink. Hafa skal í huga að einkenni sjúkdómanna og einhæft mataræði getur aukið líkur á skorti nauðsynlegra vítamína og steinefna og þess vegna gæti verið nauðsynlegt að taka aukalega vítamín og steinefni. 

Nokkuð er um að einstaklingar með bólgusjúkdóma prófi sig áfram með ýmis sérhæfð mataræði sem talin eru hafa jákvæð áhrif á daglega líðan. Þetta eru mataræði eins og t.d. Paleo, SCD, grænmetisfæði og Low FODMAP mataræðið. Hafa skal í huga að þessi mataræði snúast gjarnan um að taka mikið út úr fæðunni og því auknar líkur á orku- og næringarefnaskorti ef ekki farið rétt að. Ráðlagt er að tala við sérhæfðan næringarfræðing eða lækninn þinn ef gera á miklar breytingar á fæðuvali.

 • Grænmetisfæði getur verið mjög mismunandi, Sumir útiloka eingöngu rautt kjöt, aðrir útiloka einnig fuglakjöt og fisk og sumir taka líka út egg, mjólk og mjólkurafurðir allt eftir því hvað hver og einn vill eða hvað hentar einstakingnum. Flestir sem gerast jurtaætur leggja áherslu á að neyta fjölbreyttrar fæðu úr öllum nauðsynlegum fæðuflokkum svo sem; kornmeti, baunir, ávexti og grænmeti sem að öllu jöfnu eru rík af flóknum kolvetnum (sterkju), trefjaefnum, vítamínum, steinefnum og "góðri" fitu. Jurtafæði, svo framarlega sem það er rétt samansett, getur verið góður næringarkostur og haft jákvæð áhrif á heilsufar. Passa þarf að ekki verði skortur á nauðsynlegum næringarefnum og helst eru það járn, sink, kalk, B-12 og D-vítamín sem þarf að fylgjast með að ekki vanti.

 • FODMAP er skammstöfun fyrir Fermentable Oligosaccharides, Disaccharides, Monosaccharides and Polyols. Þetta eru kolvetni sem getur verið erfitt fyrir einstaklinga með meltingarsjúkdóma að brjóta niður og frásoga. Ómelt kolvetnin fara niður í ristilinn og geta valdið t.d. uppþembu, vindgangi og niðurgangi. Með því að útiloka þessi ákveðnu kolvetni úr fæðunni gætu einkenninn mögulega minnkað. Sumir einstaklingar með IBS (Irritable Bowel Syndrome) segja Low FODMAP mataræði sérstaklega hjálplegt.  Vísbendingar eru um að sumir einstaklingar með óvirkan IBD, gætu einnig haft IBS eða IBS-lík einkenni og þess vegna gæti FODMAP mataræðið einnig hentað þeim.

  Erfitt getur verið að fylgja low FODMAP mataræðinu þar sem það er fremur flókið og útilokar mikið af fæðutegundum. Fæða sem á að takmarka er meðal annars:
  • Fruktósi (Fructose): finnst í ávöxtum
  • Fructans (Fructans): Er í lauk, hvítlauk og hveiti
  • Laktósi (Laktose): Td. í mjólkurvörum
  • Galacto-Oligosaccarides: Í baunum og ertum
  • Polyol: Í gervisætu og sumum ávöxtum
 • Talið er að omega-3 fitusýrur hafi jákvæð áhrif á bólgur í líkamanum. Vestrænt mataræði er gjarnan lágt í omega-3 en fremur hátt í omega-6 og omeg-9 sem er ekki talið eins gott og geti ýtt undir bólgumyndun. Mataræði sem inniheldur hátt hlutfall omega-3 fitusýra en lágt omega-6 og -9, gæti haft jákvæð áhrif á einstaklinga með IBD. Omega-3 er að finna í fæðu eins og feitum fiski, lýsi, rapsolíu, hörfræjum, hörfræolíu og valhnetum.

 • Paelo mataræði eða steinaldarmataræði er byggt á mataræði foreldra okkar.  Kenningin er sú að genamengi mannsins hafi breyst mun minna en þær miklu breytingar sem hafa orðið á mataræðinu og líkami okkar sé ekki gerður til að vinna úr þessari nýju fæðu. Talsmenn mataræðisins trúa að krónískir sjúkdómar (t.d. Crohn´s sjúkdómur) eigi rætur sínar að rekja til breytinga á matvælum sem fylgdu landbúnaðarbyltingunni. Með henni varð mikil aukning á neyslu kornvara, unninna sykurvara og mjólkurvara. Paelo samanstendur af mögru kjöti, fiski og sjávarfangi, eggjum, grænmeti, ávöxtum, hnetum og fræjum.  Forðast skal mjólkurvörur, unnar kornvörur og unnin matvæli.  Mataræðið takmarkar stóra fæðuhópa sem til lengri tíma getur leitt til næringarefnaskorts. Ráðlegt er að tala við næringarfræðing eða lækni til að kanna hvort mataræðið henti þér og þínum líkama.

  Frekara lesefni um mataræðið sem og uppskriftir má t.d. finna á https://thepaleodiet.com/ og hugmyndir að Paelo nesti á:  https://irenamacri.com/30-inspiring-paleo-lunchboxes/

 • SCD er strangt lágkolvetna mataræði sem takmarkar súkrósa (sykur), laktósa og allar korntegundir (hveiti, bygg, hafra og hrís) auk sterkjuríkra fæðutegunda, t.d. kartöflur og næpur. Kenningin er að erfiðara sé að melta kolvetni sem þarafleiðandi enda oft ómelt í ristlinum. Sumar bakteríur í ristlinum nærast á kolvetnunum og við það myndast loft og eiturefni sem geta valdið einkennum eins og uppþembu og/eða niðurgangi. Talið er að með því að taka út kolvetnin, svelta slæmu bakteríurnar til að þeim fækki og þar með minnka líkur á að þær valdi skaða.

  SCD mataræðinu getur verið mjög erfitt að fylgja þar sem margar fæðutegundir eru teknar út og instaklingnum jafnvel ráðlagt að fylgja því í að minnsta kosti í ár. Mjög mikilvægt er að fá aðstoð hjá næringarfræðingi áður en þetta mataræði er reynt því erfitt getur verið að fylgja því án þess að verða vannærður.