Tíðni Crohns-sjúkdóms (algengi) hefur sexfaldast frá 1960. Ástæðan er að hluta til tækniþróun, sem hefur auðveldað greiningu sjúkdómsins, en fjöldi þeirra sem fær sjúkdóminn hefur einnig aukist. Ástæðan fyrir auknu nýgengi er óljós. Það er mikill munur á tíðni sjúkdómsins í mismunandandi heimshlutum og meðal mismunandi þjóðfélagshópa. Þannig er algengi hans meira í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum en í Afríku og Asíu. Og í Bandaríkjunum er sjúkdómurinn algengari hjá hvítu fólki og gyðingum en fólki af afrískum uppruna. Mismunurinn felst ekki aðeins í því að á Vesturlöndunum er greiningartækni betri, heldur eru óþekktir þættir í vestrænum lífsháttum og erfðafræðileg tilhneiging talin vera orsök þess að sjúkdómurinn er algengari í þessum hluta heimsins.
Samkvæmt nýjustu tölum er tíðni sjúkdómsins á Íslandi tveir á hverja 1000 íbúa, sem þýðir u.þ.b. 720 manns. Í grein Sigurðar Björnssonar sem birtist árið 2015 í "Scandinavian Journal of Gastroenterology" kemur fram að nýgengi á Íslandi, þ.e. þeir sem greinast með sjúkdóminn árlega, er 6-7 á hverja 100.000 íbúa.
Fólk á öllum aldri getur fengið sjúkdóminn en algengast er að hann greinist hjá fólki milli tvítugs til þrítugs. Crohns-sjúkdómur er 1,5 sinnum algengari hjá konum en körlum.
Hvað veldur Crohns-sjúkdómi
Rannsóknir síðustu ára hafa aukið þekkingu á áhrifum gena, sýkla og mismunandi umhverfisþátta á sjúkdómsferli Crohns-sjúkdóms. En enn er ekki vitað nákvæmlega hver orsök sjúkdómsins er. Crohns-sjúkdómur kemur fram hjá fólki sem hefur erfðafræðilega tilhneigingu til að fá hann. Þessir einstaklingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir utanaðkomandi áhrifum sem geta haft í för með sér röskun á starfsemi ónæmiskerfisins. Bólgufrumur berast með blóðinu í slímhúð þarmanna og valda langvinnum bólgum.