CCU - Crohn’s og Colitis Ulcerosa samtökin

Crohns-sjúkdómur er algengari í ákveðnum fjölskyldum samanborið við það sem almennt gengur og gerist. Því eiga 20% af fólki með Crohns-sjúkdóm einn nákominn ættingja með bólgusjúkdóm í þörmum og systkini fólks með Crohns-sjúkdóm eru í 30-40 sinnum meiri áhættu á að fá sjúkdóminn. Það bendir til þess að genasamsetning innan fjölskyldunnar auki áhættuna á að fá Crohns-sjúkdóm. Þetta hefur verið staðfest í rannsóknum á ein- og tvíeggja tvíburum. Ef eineggja tvíburi er með Crohns-sjúkdóm fær hinn tvíburinn einnig sjúkdóminn í 20-50% tilvika. Sagt er að fylgnihlutfallið sé 20-50%. Fylgnihlutfallið hjá tvíeggja tvíburum er aðeins 0-7%. Genasamsetning er eins hjá eineggja tvíburum en ólík hjá tvíeggja tvíburum. Það er sterk sönnun þess að ákveðin genasamsetning hafi mikla þýðingu fyrir hvort fólk fær sjúkdóminn. Fylgnihlutfallið hjá eineggja tvíburum er ekki 100%, sem bendir til þess að aðrir þættir hafi þýðingu varðandi það hvort fólk fái Crohns-sjúkdóm.