Lög Crohn‘s – Colitis Ulcerosa samtakanna
(með síðari breytingum til og með þeim sem gerðar voru á aðalfundi ársins 2023)
1. gr. Nafn og heimilisfang
Nafn samtakanna er: Crohn‘s – Colitis Ulcerosa samtökin. Samtökin starfa einnig undir nafninu CCU samtökin. Heimili og varnarþing er í Reykjavík. Pósthólf 5388, 105 Reykjavík.
2. gr. Markmið
Markmið samtakanna er að berjast gegn Crohn‘s og Colitis Ulcerosa sjúkdómunum og vanlíðan tengdum þeim. Þessum markmiðum skal ná með því:
- Að styðja sjúklinga með ofangreinda sjúkdóma varðandi félagsleg og andleg vandamál.
- Að stuðla að aukinni fræðslu meðal sjúklinga og aðstandenda um þessa sjúkdóma, rannsóknir þeirra og meðferð.
- Að styrkja stöðu sjúklinga gagnvart hinu opinbera (t.d. kynning, fræðsla).
- Að sjá um þýðingar á fræðsluefni.
- Að starf samtakanna nái til sjúklinga um land allt.
3. gr. Aðild og tekjur
Aðilar samtakanna geta verið:
- Sjúklingar
- Makar, foreldrar, systkini eða börn sjúklinga.
- Aðilar og samtök sem vilja styrkja starf samtakanna (án atkvæðisréttar).
Tekjur samtakanna geta verið:
- Félagsgjöld, sem stjórn samtakanna gerir tillögu um.
- Styrkir, áheit og gjafir.
Stjórninni er falið að ávaxta framlög sem berast á eins háum vöxtum og unnt er.
4. gr. Aðalfundur
Æðsta vald í félaginu hafa aðalfundur, stjórn og nefndir í þessari röð. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa aðilar samtakanna sem greitt hafa félagsgjöld, eitt atkvæði hver, skv. 3. gr.
Venjulegur aðalfundur er haldinn einu sinni á ári í lok febrúar í varnarþingi samtakanna. Stjórn boðar til hans með tilkynningu á heimasíðu, Facebook síðu (eða þeim samfélagsmiðli sem félagið notar) og tilkynningu í tölvupósti samkvæmt netfangalista félagsins, með minnst 14 daga fyrirvara. Í fundarboði skal koma fram ef breytingar hafa orðið á þessum samþykktum ásamt eftirfarandi dagskrá:
- Skýrsla stjórnar um starfsemi samtakanna á liðnu tímabili.
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.
- Tillaga stjórnar um starfsemi næsta árs.
- Kosning stjórnar.
- Kosning varamanna.
- Kosning skoðunarmanna reikninga.
- Tillögur sem hafa borist.
- Ákvörðun félagsgjalds.
- Önnur mál
Aðalfundi er stjórnað af fundarstjóra sem fundurinn velur. Kosning stjórnar fer fram með handaruppréttingu, nema 10 fullgildir aðilar krefjist skriflegrar atkvæðagreiðslu eða fundarstjóri ákveði slíka atkvæðagreiðslu. Atkvæði má greiða með skriflegu umboði, þó getur handhafi umboðs aldrei greitt fleiri en 2 atkvæði.
Ákvarðanir á aðalfundi eru teknar með einföldum meirihluta. Sjá 7. gr. um lagabreytingar. Fundargerð um umræður og samþykktir skal skrá rafrænt af ritara og vista í Facebook hópi stjórnar og einnig á geymsludrifi. Tillögur sem óskast teknar fyrir á aðalfundi verða að berast í tölvupósti til stjórnar fyrir 15. janúar.
Aukaaðalfundur er haldinn þegar stjórn eða minnst 1/3 af fullgildum félagsmönnum setja fram ósk þar um og studd er tillögu um dagskrá og er stjórn kölluð saman í síðasta lagi 6 vikum eftir slíka ósk með minnst 14 daga skriflegum fyrirvara og skal dagskrá fylgja.
5. gr. Stjórn
Stjórnin er skipuð 5 aðilum samtakanna. Minnst 2 úr stjórn skulu vera með Crohn‘s eða Colitis sjúkdóm. Rétt til stjórnarsetu hafa þeir sem hafa atkvæðisrétt í félaginu.
Stjórn er kosin 2 ár í senn og ganga 2 eða 3 árlega úr stjórn. Heimil er seta í stjórn tvö tímabil í röð með möguleika á endurkosningu síðar. Þar að auki eru kosnir 2 varamenn 1 ár í senn. Þá má endurkjósa.
Stjórn getur eftir þörfum valið í nefndir til að vinna að lausnum sérstakra verkefna.
Stjórn hefur vald til að kjósa nefnd sem kemur með tillögur um skiptingu tekna. Slík nefnd getur setið fundi stjórnar án atkvæðisréttar.
Stjórn skiptist í:
- Formann
- Varaformann
- Gjaldkera
- Ritara
- Meðstjórnanda
- Tvo varamenn
Formann skal kjósa sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum.
Stjórn heldur minnst 4 fundi árlega. Formaður boðar til stjórnarfunda og tilkynnir stjórnarmeðlimum hvaða mál eru á dagskrá. Formaður stjórnar fundum og atkvæðagreiðslum og ritari skráir rafræna fundargerð sem vistuð er í Facebook hópi stjórnar og á geymsludrifi.
Formaður sér um að koma ákvörðunum í framkvæmd. Stjórnarfundir eru boðaðir af formanni, einnig geta minnst 3 af stjórnarmeðlimum krafist fundar skriflega. Formaður eða varaformaður ásamt gjaldkera í stjórn rita nafn félagsins. Sömu aðilar hafa prókúru sameiginlega.
Fundur stjórnar er lögmætur ef meirihluti aðila er mættur. Ákvarðanir eru teknar með einföldum meirhluta. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Störf stjórnar og nefndarmanna eru ólaunuð.
6. gr. Reikningsskil
Bókhaldsár samtakanna er almanksárið. Reikningar félagsins eru endurskoðaðir af 2 skoðendum reikninga sem eru kosnir á aðalfundi.
7. gr. Lagabreytingar
Lögum samtakanna verður ekki breytt nema á aðalfundi og séu að minnsta kosti 2/3 fundarmanna samþykkir breytingunni. Tillagna til lagabreytinga skal sérstaklega getið í fundarboði til aðalfundar og efni þeirra lýst.
8. gr. Slit samtakanna
Til þess að leggja samtökin niður þarf samþykki tveggja aðalfunda, með að minnsta kosti 2/3 greiddra atkvæða á hvorum fundi. Verði samtökin lögð niður skal eignum þeirra ráðstafað til eflingar markmiðum samtakanna eða skyldum markmiðum sem viðurkennd eru af opinberum aðilum.
9. gr. Gildistaka
Lög þessi taka gildi strax eftir samþykkt lögmæts aðalfundar.
Kosning fyrstu stjórnar samanber 5. grein laganna, fer þannig fram að valdir eru 3 stjórnarmeðlimir til þriggja ára, 2 til tveggja ára og 2 varamenn til eins árs.