Næsti fræðslufundur verður þriðjudagskvöldið 13. nóvember og fyrirlesari verður sálfræðingurinn Jóhann Thoroddsen. Hann lauk B.S. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands 1977, Cand. Psych. frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð 1982 og tveggja ára námi í hugrænni atferlismeðferð 2008. Hann ætlar að tala um hvað getur gerst þegar við fáum þær fréttir að vera komin með langvinnan sjúkdóm. Hver verða viðbrögðin og hvernig er hægt að takast á við þau. Getum við náð sátt og lært að lifa með sjúkdómnum og hvaða áhrif getur þetta haft á fjölskyldu og vini. Fundurinn verður í sal Vistor, Hörgatúni 2 Garðabæ og hefst klukkan 20:00.
CCU samtökin hafa nýlega gefið út salerniskort sem er hugsað til þess að auðvelda félagsmönnum beiðni um aðgang að salerni í neyðartilvikum. Framhlið kortsins sem sést hér til hliðar er auðvitað á íslensku en bakhlið kortsins er á ensku, bæði til að það nýtist erlendis og einnig er margt erlent starfsfólk í verslun og þjónustu. Nokkrir aðilar komu að hönnun kortsins, Lóa Dís Finnsdóttir vann talsverða hönnunarvinnu og teiknaði m.a magakrassið á kortinu, en það ásamt slagorði samtakanna "Þú sérð það ekki utan á mér" er líka á stuttermabolum CCU. Natasa Revekka Theodosiou, Deputy President of Cyprus Crohn´s and Colitis Association hannaði fjólubláa lógóið á bakhliðinni. Kortið er ætlað einstaklingum með bólgusjúkdóma í meltingarvegi og nauðsynlegt er að vera félagi í CCU samtökunum til að fá kortið sent. Kynningar standa yfir og stjórnin hefur bara fengið jákvæð viðbrögð hingað til. Vonumst við til þess að allir aðilar í verslun og þjónustu sýni skilning og leyfi kortköfum að nota salerni í neyðartilvikum.